#01

Stakkóskopp!

Share It

Hoppudýnan á Stakkó hefur vakið mikla lukku síðan hún var sett upp í júní síðastliðnum. Í daglegu tali gengur þessi litríki belgur undir ýmsum nöfnum, Hoppudýnan, Loftbelgurinn, Ærslabelgurinn og Gleðibumban.

 

En hvað kom til að ráðist var í þetta skemmtilega verkefni? Við ræddum við Ólaf Snorrason, framkvæmdastjóra Tæknideildar Vestmannaeyjabæjar og Margréti Rós Ingólfsdóttur, formanns Umhverfis– og skipulagsráðs. „Við vorum búin að vera með þessa hugmynd í maganum í svolítinn tíma. Sambærilegar hugmyndir höfðu komið frá íbúum og þegar við könnuðum málið átti sá sem flytur inn þessa skrítnu og skemmtilegu gripi eina svona dýnu á lager og því var slegið til.“

„Í daglegu tali gengur þessi litríki belgur undir ýmsum nöfnum, Hoppudýnan, Loftbelgurinn, Ærslabelgurinn og Gleðibumban.“

Það er óhætt að segja að krakkarnir í Eyjum hafi verið meira og minna skoppandi glöð síðan dýnan var tekin í gagnið. Eftir því sem haustið færist yfir hefur ásókn kannski aðeins minnkað, en þrátt fyrir rok og rigningu nýtur dýnan íturvaxna enn mikilla vinsælda. „Krökkunum hefur þótt jafn skemmtilegt að hoppa í rigningu og í sólskini. Það er nefnilega líka svo gaman að hoppa í rigningu, því þá skvettist vatnið í allar áttir,“ segja Óli og Magga brosandi.

En hvað finnst krökkunum um nýju hoppudýnuna? Við tókum stöðuna á nokkrum hressum krökkum sem voru við leik á dýnunni þegar okkur bar að garði. „Við vonum að þetta verði sett upp aftur næsta sumar, þetta er mjög skemmtilegt. Það er líka rosa gaman að vera hérna í rigningunni. Maður rennur kannski soldið, en þá er þetta líka bara eins og rennibraut.“ Og hvað er skemmtilegast að gera á hoppudýnunni? „Fimleika! Flikk–flakk og heljarstökk!“ sögðu nokkrar stelpur og framkvæmdu fjöruga fimleikarútínu, máli sínu til stuðnings.

 

„Börn á öllum aldri hafa sótt mikið í tækið, allt frá litlum börnum sem varla geta gengið upp í stálpaða unglinga. Einn og einn fullorðinn hefur líka sést spreyta sig á tækinu, en það er aðallega að næturlagi,“ bæta Óli og Magga við kímin. „Við höfum ekki heyrt annað en mikla ánægju með dýnuna. Þessu fylgir lítið jarðrask og dýnan smitar út frá sér, í kjölfarið hafa önnur leiktæki verið meira stunduð á Stakkó,“ segja Óli og Magga að lokum.

„Einn og einn fullorðinn hefur líka sést spreyta sig á tækinu, en það er aðallega að næturlagi.“

Áform eru um að bæta aðstöðuna enn frekar næsta sumar, bæta við bekkjum fyrir foreldra sem láta sér nægja að fylgjast með fjörinu og þá sem þurfa augnablikshvíld frá hoppi og skoppi í Stakkó.

 

Það má því gera ráð fyrir ennþá meira fjöri í Eyjum á komandi sumri.

Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari