#01

Stakkageymslan sem varð veitingastaður

Share It

Það er rífandi stemning við Tangann þegar blaðamenn ber að garði, þrátt fyrir að klukkan sé bara rétt að ganga 11 fyrir hádegi. Við höfnina ómar dúndrandi rokktónlist, sem reynist koma frá einum af Rib Safari bátunum sem eru staðsettir beint fyrir utan áfangastað okkar. Við erum komin hingað til að hitta Hafdísi Kristjánsdóttur, eiganda veitingastaðarins Tangans, en hún rekur staðinn ásamt Páli Scheving manni sínum.

 

Þrátt fyrir stærð sína er Tanginn bæði heimilislegur og hlýlegur staður. Hafdís tekur brosandi á móti okkur og býður upp á kaffi. Við tyllum okkur við gluggann, þaðan sem útsýnið yfir höfnina er sem best. „Þetta er líka vinsælasta borðið á staðnum,“ segir Hafdís, „það er svo mikið líf hérna við höfnina. Svo spillir ekki fyrir að bæði Herjólfur og skemmtiferðaskipin koma að hérna rétt hjá — Tanginn er bókstaflega fyrsta stopp þegar þú kemur til Eyja.“

Litlu smáatriðin mikilvægust

Páll og Hafdís keyptu Tangann í nóvember 2016. Þá var annar veitingarekstur í húsinu, en Tanginn í þeirri mynd sem hann er í dag opnaði í mars 2017. Hún segir þau hafa viljað skipuleggja það vel hvernig ímynd staðarins ætti að vera og hvað ætti að vera á matseðlinum. „Við erum hvorki kokkar né þjónar svo þetta var alveg nýtt fyrir okkur.“

 

Hafdís segir að ýmsu smálegu hafi verið breytt innanhúss. „Við léttum aðeins á staðnum og skreyttum eftir okkar höfði. Við fengum okkur til dæmis fuglana sem hanga hér í loftinu,“ segir Hafdís og bendir til lofts þar sem hanga tígulegir hrafnar og súlur. „Svo tókum inn appelsínugula litinn, sem er svolítið okkar litur. Maður áttar sig ekki á því hvað þessi litlu smáatriði skipta miklu máli fyrr en þetta er allt komið saman. Það skiptir öllu máli fyrir upplifunina að hafa heildarmyndina rétta.“ Þegar kom að matseðlinum voru þau hjónin sammála um að þau vildu koma með eitthvað nýtt inn á markaðinn í Eyjum. „Við ákváðum strax að við vildum hafa súpu og salat. Ég kalla þetta stundum „mitt heilaga horn“, en þar fæ ég að vera svolítið með mína hollustu,“ segir Hafdís og hlær, en hún er menntaður jógakennari.

„En þetta var auðvitað ekki bara hugsað fyrir mig, okkur fannst þetta vanta á markaðinn. Eitthvað létt, hollt og gott. Það skiptir svo miklu máli að vera að auka við flóruna í veitingahúsum bæjarins.“

„En þetta var auðvitað ekki bara hugsað fyrir mig, okkur fannst þetta vanta á markaðinn. Eitthvað létt, hollt og gott. Það skiptir svo miklu máli að vera að auka við flóruna í veitingahúsum bæjarins, ekki bara bjóða upp á það sama og allir aðrir af því að „það er það sem allir vilja“. Þá getur maður allt eins sleppt þessu. Það er það sem er svo skemmtilegt við veitingastaðina í Vestmannaeyjum, við erum öll svo ólík. Þannig er líka meiri séns að þetta gangi upp.“

 

Súpurnar og salatið slógu svo algjörlega í gegn. „Það var samt búið að segja okkur að þetta hefði verið gert áður hérna og gengi ekki upp, en það skiptir máli hvernig þetta er útfært. Við erum að bjóða upp á þrjár mismunandi súpur á hverjum degi og þrjátíu tegundir í salatbar sem er allt útbúið ferskt samdægurs. Auk þess erum við með heimabökuð brauð og kryddsmjör sem við gerum sjálf.“ Fyrir þá sem vilja eitthvað matmeira er svo af nógu að taka á seðli Tangans, en meðal þess sem þau bjóða upp á eru heimagerðir hamborgarar, safarík rif, ferskur fiskur, crepes með áleggi og hrefnusteik sem hefur, að sögn Hafdísar, notið mikilla vinsælda.

Það er opið á Tanganum allan ársins hring. „Við ætluðum fyrst að halda okkur við sumaropnun, en svo reyndist heimamarkaðurinn alveg frábær í sumar og heimamenn voru mjög duglegir að mæta. Þá fannst okkur það vera synd að hafa lokað allan veturinn. Við ákváðum að slá til og gefa þessu séns og við sjáum alls ekki eftir því.“

 

Húsið er byggt í sama stíl og gömlu bryggjuhúsin sem voru við höfnina, en það voru eigendur og starfsfólk Rib Safari sem stóðu að framkvæmdunum sem hófust árið 2013. Húsið var upphaflega hugsað sem stakkageymsla og skáli fyrir léttar veitingar. „Þetta var unnið svolítið eftir hentugleika hjá þeim svo þetta var greinilega ofsalega skemmtileg vinna þar sem eitt leiddi af öðru.“ Sem dæmi nefnir hún að efri hæð hússins, sem hýsir nú fleiri borð og lítinn bar, hafi ekki verið hluti af upprunalegu teikningunum.

Jógakennarinn sem opnaði veitingastað

„Það kom mér rosalega á óvart hvað þetta er skemmtilegt. Þetta datt einhvern veginn bara upp í hendurnar á okkur. Þegar við tökum við húsinu ákváðum við strax að Tanginn átti að vera staður fyrir alla. Hingað er hægt að koma með krakkana í mat, kíkja í drykk á kvöldin eða kaffibolla og köku á laugardögum. Hér eru allir velkomnir, hvort sem um er að ræða fjölskyldufólk eða ferðamenn.“

 

Eins og áður kom fram er Hafdís er lærður jógakennari og hefur lært bæði Hatha, Kundalini og Yoga Nidra. Hún heldur úti litlu jógastúdíói sem nefnist Friðarból, auk þess sem hún rekur tjaldstæði yfir sumartímann. Það er því greinilega nóg að gera hjá Hafdísi og í mörg horn að líta. Hafdís er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, en hefur einnig búið á Akureyri og í Reykjavík. Eyjarnar kölluðu þó alltaf á hana og hún var viss um að hérna langaði hana að vera. „Öll fjölskyldan er hér og þetta er frábært umhverfi til að vera með börn. Líka þegar maður er kominn í „bisness“ og svona, af hverju þá að vera að fara eitthvað annað þegar maður hefur allt til alls hér?“

„Nálægðin við fólkið finnst mér annars það besta við Vestmannaeyjar. Eins og þegar ég var nýbúin að eiga og rölti niður í bæ með vagninn, þá tóku allir brosandi á móti mér með hamingjuóskum og spjalli.“

„Nálægðin við fólkið finnst mér annars það besta við Vestmannaeyjar. Eins og þegar ég var nýbúin að eiga og rölti niður í bæ með vagninn, þá tóku allir brosandi á móti mér með hamingjuóskum og spjalli. Það er ekkert svoleiðis á stærri stöðum. Þegar ég var með lítið barn í Reykjavík þá var ég bara Jónína Jóns og enginn að spjalla við mann. Í Eyjum er þetta bara eins og ein stór fjölskylda. Allir þekkjast vel og hugsa vel um alla.“ segir Hafdís og brosir.

 

Það er byrjað að streyma inn í hádegistörnina og það sést fljótt að súpu– og salatbarinn er greinilega vinsæll. Hafdís er komin á fullt að afgreiða og vísa til borðs, svo við látum þetta gott heita af spjalli og fáum okkur rjúkandi heita kjúklingasúpu og salat. Léttur hádegisverður við höfnina sem svíkur engan.

Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari