#01

Safnaleiðin

Share It

Í tímaritinu Ey ætlum við að fjalla sérstaklega um nærumhverfið okkar og verða íbúum og gestum Vestmannaeyja hvatning til að kanna möguleikana sem í boði eru. Við ætlum kynna skemmtilegar nýjungar eins og Krakkaleiðina og Pöbbaröltið ásamt því að fjalla um hjóla– og gönguleiðir. Þannig viljum að varpa nýju ljósi á það sem við eigum til að taka sem sjálfsögðum hlut. Við viljum skapa nýjar hefðir og njóta þess sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða á nýjan máta.

 

Að þessu sinni viljum við beina athyglinni að söfnunum okkar og kynnum Safnaleiðina. Söfnin í Heimaey eru einstök og er tilvalið fyrir fjölskyldur að rölta saman part úr degi og heimsækja söfnin í einum og sama göngutúrnum. Þannig er hægt að fá heildstæða mynd af sögu, menningu og náttúru Vestmannaeyja.

Sæheimar

Í Sæheimum er hægt að heimsækja Tóta lunda, skoða snertibúr með kröbbum, heilsa upp á kolkrabbann Vídalín sem elskar athygli, virða fyrir sér fiska og önnur spennandi sjávarspendýr sem þar er að finna. Þá má segja að Sæheimar breytist í eins konar pysjumiðstöð Vestmannaeyja þegar þessir litlu vinir okkar villast af leið og þurfa aðstoð. Mörg börn í Eyjum eiga góðar minningar þar sem pysjur, pappakassar og Sæheimar koma mikið við sögu.

Sagnheimar

Magnaðri sögu Vestmannaeyja eru gerð góð skil í Sagnheimum. Þar er að finna nokkrar fastar sýningar sem njóta mikilla vinsælda. Saga sjósóknar lifnar við á bryggjusvæðinu og boðið er til sætis í alvöru Þjóðhátíðartjaldi. Kapteinn Kohl, Mormónar frá Eyjum, íþróttasaga Vestmannaeyja, Tyrkjaránið og eldgosið í Heimaey fá einnig sitt sögusvæði í Sagnheimum. Þá er brugðið einstöku ljósi á líf og störf kvenna í Vestmannaeyjum.

Eldheimar

Í Eldheimum er boðið upp á gosminjasýningu í sérflokki. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum og er óhætt að segja að sýningin hreyfi við heimamönnum sem og öðrum gestum. Miðpunktur sýningarinnar er húsið sem stóð við Gerðisbraut 10 sem grófst undir ösku í gosinu og hefur nú verið grafið upp. Eldheimar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2015 þar sem sýningin þótti miðla einstökum atburðum í náttúrusögu Íslands á framúrskarandi hátt.

Skansinn

Tilvalið er að heimsækja Skansinn þegar Safnaleiðin er gengin. Þessu forna varnarvirki tengjast margir örlagaríkir og merkir atburðir sem gera sögu Vestmannaeyja svo sannarlega einstaka.

Safnaleiðin
Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari