#01

Kvenfélagið Heimaey

Share It

Það er hlýlegt andrúmsloftið heima hjá Gunnhildi Hrólfsdóttur, formanni Kvenfélagsins Heimaeyjar, þegar hún tekur á móti okkur einn regnvotan eftirmiðdag í smáíbúðahverfinu í Reykjavík. „Má bjóða ykkur kínverskt sælgæti?“ spyr hún og réttir fram skál, „við hjónin vorum nefnilega að koma frá Kína.“ Við setjumst niður og fáum okkur kaffi og blöðum í gegnum bækur og myndaalbúm.

Gunnhildur er uppalin í Vestmannaeyjum og bjó þar á Búastaðabraut fram að gosi, en líkt og svo margir aðrir sneri hún ekki aftur að því loknu, enda fór hluti götunnar undir hraun. Hún er sagnfræðingur og rithöfundur og hefur gefið út fjölda bóka, flestar fyrir börn og unglinga. Árið 2015 kom svo út bókin Þær þráðinn spunnu, veglegt sagnfræðirit um afreksverk kvenna í Vestmannaeyjum og víðar á árunum 1835–1980.

Fyrstu skref kvenna til áhrifa

Þetta er þriðja ár Gunnhildar sem formaður Kvenfélagsins og það er augljóst að hún er vel að sér um sögu þess. „Það var upp úr 1870 sem það fór fyrst að komast skriður á félagshreyfingar kvenna. Fyrsta kvenfélag landsins var stofnað í Skagafirði 1869 og árið 1874 tók svo Kvennaskólinn til starfa,“ rifjar Gunnhildur upp og segir frá því hvernig fyrstu kvenfélögin sem voru stofnuð hér á landi einbeittu sér að líknar– og hússtjórnarmálum, auk þess að láta sig bindindismál einnig varða. Stofnun fyrstu stúku landsins 1884 hafi svo leitt til aukinnar félagsstarfsemi. „Í góðtemplarareglunni var það nefnilega þannig að konur höfðu jafnan rétt á við karla,“ leggur Gunnhildur áherslu á. „Þar með stigu þær, ef svo má segja, fyrstu skrefin, en þetta reyndist ákveðin leið fyrir konur til að láta til sín taka að einhverju leyti. Það má meðal annars þakka þessari reynslu kvenna að konur fóru í auknum mæli að láta til sín taka á opinberum vettvangi, meðal annars með stofnun kvenfélaga.“

 

Stofnfundur Kvenfélagsins Heimaeyjar var haldinn 9. apríl 1953 en það var Jónína Jónsdóttir sem kallaði saman hóp kvenna á fund, þangað sem mættu 38 konur. Þeirra á meðal var Kristín Ólafsdóttir sem var kjörin fyrsti formaður félagsins. Markmið félagsins voru líknarmál og saumafundir einu sinni í mánuði en afrakstur þeirrar vinnu var svo til sölu á basar þar sem safnað var fyrir góðum málefnum. Gunnhildur segir að félagsskapurinn hafi ekki síður þótt mikilvægur en fljótlega hafi verið kosið í ferðanefnd, haldin spilakvöld og skemmtanir.

„Stofnfundur Kvenfélagsins Heimaeyjar var haldinn 9. apríl 1953 en það var Jónína Jónsdóttir sem kallaði saman hóp kvenna á fund, þangað sem mættu 38 konur.“

Samfelld hetjusaga hugsjónakvenna

Allt frá upphafi hefur verið haldið utan um fundi Kvenfélagsins með þar til gerðum bókum. Gunnhildur segir fundargerðarbækurnar í sínum huga vera samfellda hetjusögu hugsjónakvenna, sem fórnuðu tíma sínum og kröftum í þágu góðra málefna. „Þá má sérstaklega nefna vinnu þeirra í tengslum við Heimaeyjargosið 1973, bakstur fyrir lokakaffi og vinnu fyrir basar og starfsemi líknarnefndar. Kvenfélagskonur heimsóttu bæði aldraða og sjúka, veittu styrki, meðal annars til Byggðasafnsins í Vestmannaeyjum og Barnaheimilis. Eftir því sem árin liðu og bæði heilbrigðis– og félagsþjónusta batnaði og færðist í aukana hafa aðrir að miklu leyti tekið við keflinu í þeim efnum. Það má þó alls ekki gleyma því hvar þetta allt saman byrjaði, hjá brautryðjendum á meðal kvenfélaga landsins.“

Hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi

Starfsemi Kvenfélagsins Heimaeyjar hefur verið öflug í gegnum árin. Árið 1964 voru félagskonur 88 talsins og fór meðlimum sífellt fjölgandi. Þegar mest var voru 281 kona skráð í félagið, en það var árið 1978. Í félaginu eru enn í dag konur á öllum aldri með ólíkan bakgrunn, sem allar eiga það þó sameiginlegt að tengjast Vestmannaeyjum. Elsta konan sem mætti til síðasta fundar heitir Stella Guðmundsdóttir og er fædd 1923, 94 ára gömul.

 

Kvenfélagskonur voru mjög virkar í kringum Vestmannaeyjagosið 1973. „Já, þær voru held ég bara öllum stundum niðri í Hafnarbúðum við höfnina í Reykjavík. Þar var upplýsingamiðstöð. Þangað gat fólk farið og fengið upplýsingar um hvar það gæti fundið ættingja og svo framvegis. Þegar fólkið kom í land, til dæmis ég og mín fjölskylda, þá vorum við bara keyrð í einhvern skóla og þurftum að skrá þar eitthvað heimilisfang, sem var ekkert endilega það sama hjá öllum sem tengdust.“

 

„Það er svo mikill munur fyrir gamla fólkið að geta notið þess að vera úti við, anda að sér fersku lofti og heyra fuglana syngja. Það er mun meira hressandi en að sitja inni í bíl.“

Kvenfélagið tók einnig virkan þátt í söfnun sem var haldin fyrir þá Vestmannaeyinga sem höfðu lent hvað verst í gosinu. „Félagið var með kortasölu. Sólarfilma prentaði myndir á kort og gaf, sem var mikill höfðingsskapur, og Kvenfélagið tók að sér söluna. Allur ágóðinn rann svo til Vestmannaeyja.“

 

Félagið hefur einnig gefið margar gjafir til Hraunbúða, hjúkrunar– og dvalarheimilis aldraðra í Vestmannaeyjum, meðal annars rúm árið 1994 og nú seinast í sumar þegar gefinn var styrkur til kaupa á bráðskemmtilegu hjóli. Um er að ræða rafknúið þríhjól þar sem einn eða tveir farþegar geta setið á sérútbúnum bekk sem er staðsettur fyrir framan þann sem hjólar. „Það er svo mikill munur fyrir gamla fólkið að geta notið þess að vera úti við, anda að sér fersku lofti og heyra fuglana syngja. Það er mun meira hressandi en að sitja inni í bíl.“

Lopapeysan vék fyrir flíspeysunni

Kvenfélagið kemur saman sex sinnum á ári, í október, nóvember, desember, mars, apríl og maí. „Hver svo sem ástæðan er fyrir því er erfitt að segja, en ég las það nú í einhverri fundargerðinni að það þýddi ekkert að hafa fundi í febrúar því þá væru allar kvenfélagskonurnar bara á Kanarí að sóla sig,“ bætir Gunnhildur við.

 

Á fundum félagsins er leitast við að blanda saman skemmtun og fræðslu. „Nú síðast kom Albert Eiríksson og spjallaði við okkur um borðsiði, kurteisi og mat. Ég reyni líka alltaf að vera með smá erindi á hverjum fundi.“

 

Í dag er tilgangur félagsins öðru fremur að viðhalda kynnum og er ekki um nein verkefni að ræða önnur en árlegt lokakaffi í kringum 11. maí, sem er lokadagur vertíðar. Þá er áhersla lögð á að sinna þeim félagskonum sem eldri eru, til dæmis með því að færa þeim blóm á áttræðis- og níræðisafmælinu. „Já, það fór að hægjast um á basarnum þegar flíspeysurnar komu til sögunnar, þá hættu allir að vilja ganga í lopapeysum,“ segir Gunnhildur og hlær. Þrátt fyrir að það sé farið að hægjast um láta þær Kvenfélagskonur sig ekki vanta á stórar hátíðir í Vestmannaeyjum, enda kunna þær vel að meta góða skemmtun. „Við förum árlega í vorferð en nú er á döfinni að fara á Goslokahátíðina næsta sumar. Við förum á fimm ára fresti, en félagið verður einmitt 65 ára á næsta ári,“ segir Gunnhildur að lokum.

Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari

Kvenfélagið Heimaey image

Kvenfélagið Heimaey

Gamlar myndir