#01

Heimir tæklaður: Frá ÍBV til landsliðsins

Share It

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er öllum kunnur en hann hefur undanfarin ár leitt íslenska karlalandsliðið í fótbolta til vegs og virðingar á alþjóðlegum knattspyrnuvettvangi. Hann er Vestmannaeyingur í húð og hár, enda fæddur og uppalinn á eyjunni grænu. Við vorum svo heppin að fá að setjast niður með þessum upptekna manni en hann tók brosandi á móti okkur í Laugardalnum einn morguninn, þar sem Knattspyrnusamband Íslands er til húsa. Hann býður okkur kaffi og við hefjum spjallið, og þá er nærtækast að byrja þar sem þetta hófst allt saman: hjá ÍBV. 

ÍBV á alltaf eitthvað inni hjá mér

Þú varst lengi hjá ÍBV, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hvernig er að standa á hliðarlínunni og fylgjast með?

„Það er alltaf erfitt að skipta sér ekki af,“ segir Heimir sposkur á svip. „En við erum svo heppin að hafa verið með góða þjálfara í Eyjum sem ég treysti fullkomlega til þess að stjórna þessu. Ég hef reynt að hjálpa án þess að skipta mér of mikið af, mér finnst það svolítil kúnst að bjóða fram hjálp en þykjast ekki vera betri en einhver annar. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að mér finnst ÍBV alltaf eiga eitthvað inni hjá mér. Hjá þeim fékk ég alltaf stærri og stærri verkefni í þjálfun, sem endaði með því að ég er hér í dag. Það er allt ÍBV að þakka að ég er þar sem ég er í dag.“

 

Heimir þjálfaði börn og unglinga hjá ÍBV í 17 ár, bæði með skóla og á meðan hann var að spila sjálfur, auk þess sem hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá liðinu. „Það má því segja að ég sé búinn að þjálfa alla flóruna. Það er ofboðslega dýrmætt fyrir þjálfara sem er kominn á minn stað að vera með allan þennan bakgrunn. Það er samt frekar sérstakt að landliðsþjálfari sé búinn að þjálfa krakka svona lengi.“

„Það er ÍBV að þakka ég er þar sem ég er í dag“

Vestmannaeyjabær hefur alltaf verið mikill íþróttabær. Mikil samkeppni hefur alltaf ríkt í bænum sem reif upp metnaðinn hjá fólki, fyrst á milli Týs og Þórs, en núna er frekar hægt að tala um togstreitu á milli handbolta og fótbolta. „Mér finnst það bara hollt,“ segir Heimir, „því það eru auðvitað allir bara að reyna að gera sitt besta til að fá krakkana til að æfa hjá sér, svo þetta veitir aðhald. Það er margsannað með fjölda rannsókna að börnum og unglingum sem stunda íþróttir af einhverju tagi gengur iðulega betur í skóla, auk þess sem þeim hættir síður til þess að leiðast út í óreglu. Það er samræmi þarna á milli. Þess vegna eru bæjarfélögin svona metnaðarfull og vilja hafa góða aðstöðu til íþróttaiðkunar. Vestmannaeyjabær fer þar örugglega fremst í flokki hvað varðar aðstöðu. Það er eiginlega bara fáránlegt hvað hún er góð! Fólk úti trúir mér ekki þegar ég segist vera frá 4000 manna bæjarfélagi sem er með fjóra grasvelli og þrjá handboltavelli og ég veit ekki hvað og hvað. Það er á heimsmælikvarða hvað það er hugsað vel um krakkana okkar bæði hvað varðar þjálfun og aðstöðu.“

Þrátt fyrir að spila hvorki né þjálfa með félaginu lætur Heimir sig ekki vanta á Þrettándagleði Vestmannaeyjarbæjar ár hvert, sem ÍBV hefur árum saman átt stóran hlut í að skipuleggja. „Ég verð alveg í rusli ef ég missi úr Þrettánda. Ég lít á þetta sem einstaka leið fyrir félagið til að þakka bæjarbúum fyrir stuðninginn í gegnum árin. Þarna eru í kringum 200 manns sem koma saman og verja hundruðum vinnustunda í að setja á svið leikrit fyrir bæinn. Ef þú ætlaðir að borga fólki fyrir vinnu af þessari stærðargráðu þá væri þetta aldrei hægt. Það er ótrúlega fallegt og gott að sjá þetta ganga upp ár eftir ár, sérstaklega í græðgismenningunni sem er við lýði í dag. Við gegnum öll ákveðnu hlutverki í leikritinu og ég er viss um það að eftir mína lífdaga þá muni mitt hlutverk skipta mun meira máli en nokkur veraldleg gæði þegar kemur að því að skipta arfinum,“ segir Heimir og hlær.

„Það er á heimsmælikvarða hvað það er hugsað vel um krakkana okkar bæði hvað varðar þjálfun og aðstöðu.“

Þjálfun á Íslandi á heimsmælikvarða

Hvernig er aðstaðan á Íslandi almennt fyrir yngri flokka? Er þjálfunin í góðum gæðaflokki hér á landi?

„Barna– og unglingaþjálfun á Íslandi er líklega með því besta sem gerist í heiminum í dag. Við eigum ótrúlega marga metnaðarfulla þjálfarar sem hafa farið í gegnum þjálfaramenntun hjá KSÍ, og það er örugglega hvergi annars staðar í heiminum jafnmikill fjöldi menntaðra þjálfara á hvern einstakling sem er að æfa. Auk þess er lítill sem enginn munur á gæðum þjálfunar í smábæ úti á landi eða hjá Íslandsmeisturum í Reykjavík og það er einstakt. Ef að þjálfarar koma ekki til Reykjavíkur þá höfum við haldið námskeið fyrir þá úti á landi til þess að þetta sé raunin. Aðstaðan er einnig mjög góð, hún er nánast jöfn út um allt land. Þó það séu vissulega fleiri hallir í Reykjavík þá eru að sama skapi miklu fleiri krakkar að æfa. Í Vestmannaeyjum getum við aftur á móti haft æfingar nánast hvenær sem við viljum í góðri aðstöðu. Þetta finnst mér einstakt við Ísland. Það eru jöfn tækifæri fyrir alla að þessu leyti. Það getur hver sem er labbað inn á æfingu og tekið þátt. Það skiptir ekki máli hvort þú ert góð eða léleg í fótbolta, það mega allir koma á æfingu. Það er ekki endilega þannig hjá atvinnumannafélögunum úti í heimi.“

 

Það er ekki hægt að taka viðtal við Heimi án þess að tala aðeins um íslenska karlalandsliðið í fótbolta og velgengni síðustu ára.

Mikilvægt að vera bjartsýnn en raunsær á sama tíma

Hvernig er að ferðast um allan heim sem fulltrúi Íslands, finnurðu fyrir mikilli pressu eða skiptir það litlu máli í stóra samhenginu?

„Þetta er ákveðið ferli. Sem leiðtogi þá verður þú að trúa á það sem þú ert að gera. Þess vegna förum við alltaf í gegnum ákveðna rútínu, leikgreinum andstæðinginn og berum hann saman við styrkleika okkar. Þegar við höfum sannfært okkur um það að leiðin sem við höfum valið sé sú rétta þá getum við farið að undirbúa liðið. Ég held að það sé mikilvægt að vera bjartsýnn en á sama tíma raunsær. Við vitum það að stundum getur Ísland átt frábæra frammistöðu en samt tapað á móti góðum fótboltaþjóðum. En ég held að það sé leiðin, að byrja á að sannfæra okkur um að þetta sé rétta leiðin. Þegar leiðtoginn trúir því þá getur hann farið að smita trú til annarra. Það er leiðin til að vera rólegur og jákvæður.“

Hver er að þínu mati helsti munurinn á því að þjálfa yngri flokka eða lið atvinnumanna þar sem er valinn maður í hverri stöðu?

„Með krökkunum þarf auðvitað að þjálfa grunntækni, á meðan atvinnumenn hafa tekið út alla sína grunnþjálfun. Maður finnur samt alltaf einhverja vinkla og að mínu mati gerir það mann sterkari og víðsýnni sem þjálfara að hafa unnið með krökkum. Hjá landsliðinu þarf minna að þjálfa einstaklinginn, heldur frekar að þjálfa liðið sem heild.“

Hvernig er að þjálfa lið svona ólíkra einstaklinga með mismunandi bakgrunn?

„Það verður sífellt einfaldara því að við erum alltaf að ná að móta betur stefnuna varðandi það hvernig einstaklinga við viljum fá í liðið til að skapa sem besta heild. Í dag erum við með einstaklega öfluga liðsheild, sem gerir þjálfunina auðveldari. Auðvitað tekur tíma að finna út hvaða leikmenn henta best, en svo eru okkar knattspyrnugildi og okkar vinnuumhverfi svo skýrt að ég að tel það sé auðveldara að koma inn nýr inn í hópinn heldur en það var. Við vitum að við getum ekki verið bestir í öllu og þá viljum við frekar vera bestir í 6 atriðum af 10 heldur en meðalgóðir í 10 atriðum af 10. Þannig getum við unnið sterkari knattspyrnuþjóðir heldur en Ísland. Þá erum við heldur ekkert að velta okkur upp úr því að aðrir séu betri en við á sumum sviðum. Þess vegna er þægilegt fyrir utanaðkomandi leikmann að koma inn í liðið, hann fær strax skýr skilaboð um það hvernig við viljum hafa hlutina.“

Heimir segir þetta vera einstakan hóp. „Ekki bara leikmenn sem einstakir karakterar heldur líka hópurinn í kringum liðið, starfslið og sjúkraþjálfarar og allt það. Þetta eru auðvitað ekki alltaf sömu einstaklingarnir, en ég held að það geri sér allir grein fyrir því hvað liðsheildin er mikilvæg fyrir þetta lið. Ef við ætluðum að spila sem ellefu einstaklingar þá myndum við líklega tapa hverjum einasta leik. Það eru allir þjálfarar í heiminum að leita að leikmanni sem er tilbúinn að vinna af sér rassgatið svo að liðinu gangi vel. Ég vildi að ég gæti sýnt ykkur viðtöl sem ég nota oft á liðsheildarfundum þar sem að leikmaður er jafnvel að hrósa þeim sem að tók sætið af honum í liðinu. Það er algjörlega einstakt. Eins og alþingismaður myndi hrósa einhverjum úr öðrum flokki sem tók þingsætið af honum. Ég sé það ekki fyrir mér gerast í náinni framtíð.“

Ef við ætluðum að spila sem ellefu einstaklingar myndum við líklega tapa hverjum einasta leik

Nú var samstarf ykkar Lars Lagerbäck mjög farsælt fyrir landsliðið. Hvernig var tilfinningin að halda áfram einn með liðið?

„Það var ofboðslega gott fyrir þjálfara eins og mig að hafa jafn reyndan mann og Lars með mér. Hann er búinn að vera tugi ára í að þjálfa landslið og hefur lent í öllu. Þá er gott að geta leitað til hans og ég geri það enn í dag. Hann er mjög góður vinur minn og við styðjum hvor annan.“

 

Frumvinna fyrir komandi HM er nú í fullum gangi. 1. desember verður svo dregið í riðlana og þá fer frekari undirbúningur í gang. „Nú erum við að finna vináttuleiki og höfum fundið stað til að vera á í Rússlandi,“ segir Heimir. „Við vitum ekki hvar við spilum fyrr en dregið verður og Rússland er stórt land. Við erum samt heppnir, þetta er HM og hefði getað verið í Ástralíu eða Suður-Kóreu, við verðum þó allavega innan Evrópu,“ segir Heimir kankvís.

„Ég er auðvitað með stóran viðskiptavinahóp sem ég vil þjóna vel og líður illa ef það er ekki tannlæknir á svæðinu. Mér þykir vænt um alla þá sem hafa verið hjá mér á stofunni í fjölda ára og vil að það sé hugsað vel um það fólk.“

Margt líkt með tannlækningum og þjálfun

Eins og alkunna er þá er Heimir ekki eingöngu fótboltaþjálfari, heldur líka tannlæknir og hann reynir að sinna báðum störfunum eftir bestu getu. En hvernig er að sinna þessu samhliða; fótboltanum og tannlækningunum?

„Þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara. Þegar við Lars vorum að þjálfa saman þá gátum við svolítið skipt með okkur verkum. Það fylgir þessu auðvitað mikil vinna, maður þarf að hitta fólk sem vill taka við mann viðtöl og svona og þá getur maður ekki verið að redda tannpínum á meðan,“ segir Heimir með smá stríðnistón í röddinni. „Ég er auðvitað með stóran viðskiptavinahóp sem ég vil þjóna vel og líður illa ef það er ekki tannlæknir á svæðinu. Mér þykir vænt um alla þá sem hafa verið hjá mér á stofunni í fjölda ára og vil að það sé hugsað vel um það fólk.“

Aðspurður segist hann þó ekki vera tannlæknir neins í landsliðinu. „Nei, þeir eru allir erlendis. En ég hef svosem alveg kíkt upp í einhverja þarna,“ segir Heimir og hlær.

 

Heimir reynir að fara eins oft og mögulegt er til Eyja, jafnvel þó að það sé bara stutt stopp eftir vinnu og svo aftur upp á land daginn eftir. Bara til þess að geta verið í Vestmannaeyjum. „Mér líður vel í Eyjum og geng mikið á fjöll til þess að tæma hugann. Ég fæ alltaf orku frá umhverfinu þarna. Ystiklettur er uppáhaldsstaðurinn minn, þó ég nenni nú ekki að labba þar á hverjum degi, en ég labba alltaf eggjarnar í hádeginu þegar ég er í Eyjum og hlusta á hljóðbækur eða eitthvað á meðan. Reyni að tvinna saman þetta líkamlega og andlega.“

Hann segir lítið hafa breyst í því hvernig komið er fram við hann, þrátt fyrir að hann hafi notið velgengi á ýmsum sviðum. „Það er það góða við Vestmannaeyjar að það þekkja allir alla. Þú þarft ekkert að vera að leika neinn þegar þú ert á svona stað, það myndu allir sjá í gegnum það strax. Ég er bara sami vitleysingurinn og ég var fyrir 20 árum og það þekkja allir minn bakgrunn. Þó að ég hafi náð þessum árangri þá er ég alltaf „bara ég“ þegar ég kem til Vestmannaeyja.“

„Sumir þjálfarar fara í golf, ég fer að vinna sem tannlæknir“

Hvar sérðu þig eftir 5–10 ár? Muntu vera að stunda tannlækningar, þjálfun eða eitthvað allt annað? Værirðu jafnvel til í að þjálfa einhvers staðar úti?

„Tíu ár er ofboðslega langur tími þegar þú ert orðinn fimmtugur,“ segir Heimir og hlær. „En ég er metnaðarfullur, ég stefni alltaf hærra. Eins og staðan er núna er ekkert starf meira spennandi en að vera landsliðsþjálfari. Eftir tíu ár vona ég að ég verði hjá einhverju stóru liði, hvort sem það verður erlendis eða bara ÍBV sem stórliði. Ég ætla aldrei að hætta að vera tannlæknir. Þjálfarastarfið er nú bara þannig að þú getur vaknað einn daginn án atvinnu. Tannlækningarnar eru ágætis „afþreying“ fyrir mig. Sumir þjálfarar fara í golf, ég fer að vinna sem tannlæknir. Það er gott finnst mér að geta gert það. Ef ég fer erlendis verður það samt erfitt, kannski fæ ég að vinna fyrir hádegi einn dag í viku á einhverri stofu þar,“ segir Heimir. „Þetta er bara eins og aðrar greinar, þú þarft auðvitað að halda þér við. En þú getur að sama skapi unnið við þetta hvar sem er. Þær eru kannski eins að því leyti, tannlækningarnar og íþróttirnar. Það er alveg sama hvert þú ferð, það gilda alls staðar sömu reglur.“

„Ég ætla aldrei að hætta að vera tannlæknir. Þjálfarastarfið er nú bara þannig að þú getur vaknað einn daginn án atvinnu.
Tannlækningarnar eru ágætis
„afþreying“ fyrir mig.“

Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari

Paul Grover image

Paul Grover

Mynd af Heimi á tannlæknastofu

KSÍ image

KSÍ

Myndir úr landsleikjum