#01

Ást, umhyggja og loðna er allt sem þarf

Share It

Á fiska- og náttúrugripasafninu Sæheimum búa um þessar mundir fimm lundar. Þeirra frægastur er sennilega Tóti lundi, en fyrir skemmstu fengum við að taka hann og vinkonu hans, Hafdísi lunda, í örstutt viðtal. Til að koma í veg fyrir alla samskiptaörðugleika nutum við liðsinnis túlks á staðnum.

Venjulegir lundar í óvenjulegum aðstæðum

Gaman að sjá ykkur, Tóti og Hafdís. Hvað kemur til að þið búið hérna á Sæheimum en ekki með öllum hinum lundunum?

„Ég klaktist úr egginu í ágúst 2011, sex vikum seinna en aðrar pysjurnar,“ segir Tóti. „Það var mikill fæðuskortur í hafinu umhverfis Eyjarnar þetta ár og foreldrar mínir höfðu frestað varpinu eins lengi og þau gátu. Þó að þau legðu sig öll fram, þá gekk þeim illa að finna mat handa mér og því óx ég mjög hægt og var alltaf svangur.“

„Já, ég hef séð myndir af honum frá þessum tíma, ægilega sætur og lítill loðbolti,“ skýtur Hafdís inn í samtalið, áður en Tóti heldur áfram. „Það var svo vanur göngumaður sem fann mig þegar ég var glorsoltinn að væflast um og hann kom með mig hingað í Sæheima. Hér voru allir góðir við mig og ég fékk loksins nóg að éta. Gestum safnsins fannst gaman að fá að hitta litla lundapysju og því varð ég smám saman mjög vinsæll. Þegar ég varð eldri fóru gestirnir að skrifa um mig á Trip Advisor og svoleiðis og frægðarsólin fór þá að skína.“ Hafdís er aðeins yngri, eða þriggja ára gömul, og unir einnig hag sínum vel á safninu. „Ég var ekki vatnsheld þegar ég kom, þess vegna er ég enn hér. Svo er líka bara ótrúlega mikið stuð hérna á Sæheimum.“ Það er einmitt mjög mikilvægt að snerta ekki lundana eða klappa þeim um of þar sem það getur haft slæm áhrif á fjaðrahaminn og valdið því að lundarnir tapi þeim eiginleika að vera vatnsheldir. „En við erum auðvitað bara venjulegir lundar sem lentum í óvenjulegum aðstæðum,“ segir Hafdís kímin.

Flottur og þéttur hópur

Eru​ ​fleiri lundar hérna í Sæheimum?​ ​Hvernig er stemningin í hópnum?

„Nú erum við orðin fimm talsins. En við erum auðvitað aðal,“ segir Hafdís montin. „Svo er það Karen sem er líka þriggja ára. Hún var slösuð á fæti þegar hún kom og er ennþá hölt greyið. Hún er mjög feimin og róleg. Algjört krútt. Sigurbjörg er lundapysja frá því í ár. Hún er svolítið vitlaus eins og pysjur eru yfirleitt og það eru óttaleg læti í henni. Ég vona að það verði hægt að sleppa henni einn góðan veðurdag. Fimmti lundinn hér er svo hún Angie, en hún er bara í pössun. Við erum öll voða góðir vinir. Flottur og þéttur hópur.“

„Nú erum við orðin fimm talsins. En við erum auðvitað aðal,“ segir Hafdís montin.

Tóti og Heimir frægustu Eyjapeyjarnir

Ég​ ​var​ ​að​ ​heyra​ ​að​ ​fólk​ ​kæmi​ ​hvaðanæva​ ​að​ ​til​ ​að​ ​hitta​ ykkur,​ jafnvel​ ​alla​ ​leið​ ​frá​ ​útlöndum. Hvernig​ ​er​ ​frægðin​ ​að​ ​fara​ ​með​ ykkur?

„Við Heimir erum líklega frægustu Eyjapeyjarnir og erum báðir að höndla frægðina mjög vel. Svona hógværar týpur og látum frægðina ekki stíga okkur til höfuðs,“ segir Tóti og glottir. „En þetta er bara skemmtilegt, stundum setjum við upp sýningar fyrir gestina, gerum smá grín og fíflumst. Þá eru teknar margar myndir og við fáum mikið hrós.“ Hafdís tekur undir þetta. „Það er rosalega mikið að gera hjá okkur og við höfum hitt fólk frá næstum öllum löndum í heiminum. Svo erum við líka á Instagram og Facebook, maður þarf að fylgjast vel með því sem er að gerast.“

Eru​ ​gestirnir​ ​ekkert​ ​ágengir?​

„Þetta getur verið álag og auðvitað verður að halda gestum í hæfilegri fjarlægð. Þegar við erum búin að fá nóg af þeim þá köllum við bara á starfsmenn, þeir eru ótrúlega hjálplegir og vilja allt fyrir okkur gera. Þá er bara komið að hinum að halda uppi stuðinu,“ segir Tóti.

„Það er rosalega mikið að gera hjá okkur og við höfum hitt fólk frá næstum öllum löndum í heiminum. Svo erum við líka á Instagram og Facebook, maður þarf að fylgjast vel með því sem er að gerast.“

Nýtt heimsmet í pysjuvigtun

Nú​ ​var​ ​heimsmetið​ ​frá​ ​2015​ ​í​ ​pysjuvigtun​ ​slegið​ ​nú​ ​í​ ​haust​ ​og 4814​ ​pysjur vigtaðar​.​ ​Hvernig​ ​er​ ​tilfinningin?

„Alltaf gaman þegar gengur vel. Afi sagði oft sögur frá sínum pysjutíma með stjörnur í augunum. Þetta hefur verið alveg alveg magnaður tími. Alls kyns ævintýri og mikið líf í hverjum kletti. Það eru góðir tímar framundan fyrir okkur lundana, við erum alveg vængviss um það,“ segir Hafdís ákveðin og Tóti jánkar því.

 

Við kveðjum þessa lífsglöðu lunda, þökkum fyrir okkur og skundum út úr Sæheimum. Það er best að trufla íbúana ekki lengur. Það er verið að bera fram ljúffenga loðnu sem er í miklu uppáhaldi hjá Hafdísi, Tóta og hinum lundunum.

 

Fylgist með Tóta og Hafdísi á Facebook og Instagram.

Ritstjórn Ey image

Ritstjórn Ey

Höfundur

Marino Thorlacius image

Marino Thorlacius

Ljósmyndari

Sæheimar image

Sæheimar

Myndir úr safni