Kæru Vestmannaeyingar

Það er ekki einfalt að lýsa fyrir öðrum hvernig það er að vera Vestmannaeyingur. Eiginlega alveg ómögulegt. Enda ekkert skrýtið, hvernig á sá sem er alinn upp annars staðar að geta sett sig í spor manneskju sem finnst fullkomlega eðlilegt að leggja allt til hliðar og einhenda sér í það að bjarga ófleygum lundapysjum dag eftir dag? Hvernig á maður líka að geta lýst í orðum þessari næstum áþreifanlegu, stígandi eftirvæntingu sem fylgir Þjóðhátíð? Gleðinni sem fylgir Þrettándanum?

Hvernig það er að búa á virku eldfjalli og finnast Heimaklettur vera hluti af fjölskyldunni? Ólýsanlegt.

Það er þetta og svo ótalmargt annað sem sameinar okkur og gerir okkur að Vestmannaeyingum. Þú veist hvað ég meina.

Svo er líka bara svo gott að búa í Eyjum og það er mikil uppbygging í bænum. Íbúðir rísa, fyrirtæki styrkjast, von er á nýjum Herjólfi, verið er að byggja húsnæði fyrir fatlaða og aldraða og leikskólar stækka. Eins og sést á öflugu starfi leikfélags, kóra, lúðrasveitar, myndlistarmanna og annarra, þá er menningin einnig sterk. Bíóið er þar frábær viðbót, gróska í veitingarekstri er með ólíkindum og söfnin okkar hafa vakið eftirtekt víða um heim. Nýtt sædýrasafn, með hvali sem aðalaðdráttarafl, kemur til með að auka hróður safnanna enn frekar, enda afar metnaðarfullt verkefni þar á ferð. Svo er það ÍBV. Frábært starf hjá yngri flokkum og bikarmeistarar karla og kvenna 2017. Þvílíkt ár, þvílíkt félag.

Þessi árangur er engin tilviljun og er vitnisburður um styrk Eyjamanna. Eljusemi, dugnaður og ósérhlífni hefur skilað okkur þangað sem við erum. Heimir okkar Hallgrímsson getur sagt okkur allt um það. Við erum alltaf til í að gera þetta „extra“ sem þarf.

Það er einmitt þess vegna sem við ráðumst í átakið Ey. Það er hluti af okkar „extra“. Með því viljum við horfa aðeins inn á við, hlúa vel að bænum okkar og fólkinu sem í honum býr. Með átakinu ætlum við að brydda upp á alls kyns nýjungum, standa fyrir skemmtilegum uppákomum og minna okkur á að það er ástæða fyrir því að við veljum að búa í Vestmannaeyjum. Minna okkur á að við getum alltaf gert betur.

Við viljum gera íbúa jafnvel enn stoltari af því að búa í Eyjum. Þannig búum við ekki bara til betra samfélag, heldur gerum við Vestmannaeyjar að enn ákjósanlegri áfangastað gesta. Reynslan hefur nefnilega sýnt okkur að lífsgleði okkar Eyjamanna er smitandi og hrífur þá sem hingað koma.

Við viljum auka á jákvæðni meðal Vestmannaeyinga og virkja bæði bæjarbúa og fyrirtæki í bænum til góðra verka. Við skulum standa saman um að deila gleðinni því þannig hlúum við best að því sem okkur er kærast.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar

Signature Loka
Lesa meira